Unnið að uppfærslu
Sjálfsmat hefur ekki verið með reglubundnum hætti í Grunnskóla Raufarhafnar síðastliðin ár en stefnt er að því að gera bragarbætur í þeim efnum. Vegna fæðar nemenda síðustu ár hefur ekki verið notast við sérstök kerfi á borð við Skólapúlsinn, heldur hefur matið einkum farið fram í samtölum við nemendur, foreldra og starfsfólk.
Samkvæmt áætlun í ársskýrslu skólans var gerð efnisleg áætlun til þriggja ára um innra mat. Árið 2020-2021 var ákveðið að flétta endurskoðaða skólastefnu Norðurþings í innra mat skólans.
Meginuppistaðan í innra mati skólans verða fjórar formlegar kannanir og starf í umbótahópum:
- Tengslakönnun er gerð í 1. til 4. bekk og 5. -7. bekk. Könnunin er gerð í október ár hvert og vinna kennarar vinna úr henni og athuga vísbendingar í sínum bekkjum. Þeir eru síðan ábyrgir fyrir fyrstu viðbrögðum. Þeir skila niðurstöðum sínum til skólastjóra sem tekur upplýsingar saman. Umsjónarkennarar ræða svo niðurstöður einstakra nemenda í foreldrasamtölum í október. Niðurstöður einstakra hópa og einstaklinga eru teknar fyrir í nemendaverndarráði. Ef grunur um einelti vaknar við þessa athugun fer áætlun um einelti í gang sem er í höndum umsjónarkennara. Sjá aðgerðaráætlun gegn einelti á heimasíðu skólans og þar má einnig finna sérstakt tilkynningareyðublað vegna gruns um einelti.
- Könnun á líðan nemenda. Nemendur fá sérstök eyðublöð með brosköllum til að skrá sína líðan sem tengist skólastarfinu. Þeim gefst einnig tækifæri til að skrifa eigin hugleiðingar. Niðurstöður eru ræddar á kennarafundi og síðan í foreldrasamtölum sem eru við annarskil í janúar. Stjórn foreldrafélagsins er einnig gerð grein fyrir helstu niðurstöðum.
Könnun á viðhorfi foreldra er gerð samhliða könnunum nemenda í janúar fyrir foreldrasamtöl og námsmat. Spurningar eru staðlaðar en bætt við ef þurfa þykir að skoða sérstök mál frá ári til árs og lagðar fyrir alla foreldra. Kannanirnar fara fram á netinu og eru nafnlausar en vegna þess hversu fámennur foreldahópurinn er, verða ekki kynntar nákvæmar niðurstöður en fjallað um þær í foreldrafélaginu og í ársskýrslu skólans. Skólastjóri ber ábyrgð á því að unnið sé með athugasemdir sem bæta starfið í skólanum. Gætt er trúnaðar um viðkvæmar athugasemdir sem geta komið fram í könnuninni. Skólastjóri ber ábyrgð á að koma sérstöku hrósi á framfæri til einstakra starfsmanna. Foreldrar hafa ágætis aðgengi að kennurum og skólastjóra og geta komið ábendingum sínum á framfæri sem síðan verður unnið úr. - Könnun á viðhorfi og líðan starfsmanna mun fara fram árlega samhliða öðrum könnunum sem gerðar eru í janúar . Meginniðurstöður eru kynntar á starfsmannafundi og með stjórn foreldrafélagsins. Skólastjóri ber ábyrgð á því að unnið sé með athugasemdir sem bætt geta viðhorf og líðan starfsmanna.
Sveitarfélög sinna mati og eftirliti með gæðum skólastarfs. Þau skulu jafnframt fylgja eftir að það mat leiði til umbóta í skólastarfi ef þess þarf.
Menntamálaráðuneytið annast greiningu og miðlun upplýsinga um skólahald í grunnskólum. Það stendur einnig fyrir samræmdu námsmati í grunnskólum í 4., 7. og 9. bekk.
Lesferill er matstæki sem unnið er af læsisteymi Menntamálastofnunar í samstarfi við aðra sérfræðinga stofnunarinnar. Lesferli er ætlað að meta grunnþætti læsis s.s. lesfimi, lesskilning, ritun, orðaforða og málskilning. Þrisvar á skólaári er Lesferill lagður fyrir alla nemendur grunnskólans; í september, janúar og maí.