Í vikunni var síðari sýning nemenda Grunnskóla Raufarhafnar á verkinu Í teiti hjá prinsessunni á graskerinu. Um 60 manns mættu á þessa aukasýningu, en áður höfðu um 100 manns mætt á frumsýninguna fyrir páska.
Nemendur unnu sjálfir alla leikmynd, léku öll hlutverk og mönnuðu þar að auki hljómsveit sem spilaði í verkinu. Verður það að teljast ansi magnað afrek hjá skóla sem telur 25 nemendur á leik- og grunnskólaaldri. Krakkarnir stóðu sig öll frábærlega í sínum hlutverkum og ber að hrósa þeim fyrir frábæra og fagmannlega frammistöðu.
Foreldrafélagið Velvakandi er virkur þátttakandi í sýningunni, en allur ágóði af sýningunni rennur til félagsins. Á frumsýningunni var boðið upp á pottrétt að sýningu lokinni og í hléi á aukasýningu stóð það fyrir pylsusölu. Stjórn foreldrafélagsins er þakkað kærlega fyrir sína aðkomu að verkinu.
Nemendur og starfsfólk Grunnskóla Raufarhafnar vilja þakka öllum þeim sem lögðu hönd á plóg við sýninguna kærlega fyrir hjálpina auk þess sem allir leikhúsgestir fá kærar þakkir fyrir komuna.
Myndir frá sýningunni má nálgast með því að smella hér.
Athugasemdir