Undir lok skólaárs fengu nemendur í 1.-3. bekk flöskuskeyti sem Halldór, pabbi hennar Nikolu, fann í fjörunni við Skinnalón. Skeytið var frá þeim Evu (8 ára) og Rasmusi (4 ára) frá Noregi. Ekki kom fram hvenær skeytið var sent.
Krakkarnir í 1.-3. bekk heimsóttu svo aðra nemendur skólans og sýndu þeim skeytið.
Bekkurinn setti saman lítið bréf til þeirra og sendi á heimili þeirra í Noregi en þau höfðu ekki fengið svar fyrir skólaslit. Bréfið var svohljóðandi:
Halló Eva og Rasmus.
Flöskuskeytið ykkar kom að landi rétt við Raufarhöfn við sveitabæ sem heitir Skinnalón. Maðurinn sem fann skeytið lét okkur, nemendur
í 1. – 3. bekk, í grunnskólanum hafa það.
Raufarhöfn er lítið sjávarþorp á norðurströnd Íslands. Hér búa um 200 manns, í skólanum okkar eru 25 nemendur.
Það er skemmtilegt að búa á Raufarhöfn og hér er gott að vera. Hér er mikið fuglalíf og hér er verið að byggja
Heimskautsgerði.
Ef þið komið einhvern tímann til Íslands þá eruð þið velkomin til okkar. Hvenær senduð þið flöskuskeytið af
stað? Gaman væri að fá að vita það, þið getið sent okkur póst á heida@raufarhofn.is
Bestu kveðjur til ykkar
Heiða, Agnar, Guðni, Nikola, Júlía og Birna
Svarbréf þeirra systkina verður birt hér á heimasíðu skólans um leið og það berst Heiðu kennara.
Athugasemdir