30. mars 2007 - Lestrar 290 - Athugasemdir ( )
Mikið fjör og mikið gaman var á árshátíðinni sem haldin var í gærkvöldi við mikinn fögnuð bæjarbúa. Nemendur grunnskólans og kennarar þeirra höfðu allir sem einn lagt hönd á plóg til að gera þessa skemmtun sem besta. Yngsta kynslóðin dansaði skottís og fræddi gesti um heimsálfurnar, sýndu þeim síðan frumsamin leikrit sem tengdist vinnu þeirra um heimsálfurnar og sungu í lokin. 5. bekkur fór á kostum í leikþáttunum “Biðstofan” og “ekki er allt sem sýnist”. Hljómsveitin sem skipuð er Arnóri í 5. bekk, Þorgeiri Brimi í 7. bekk og Obbu í 8. bekk sló í gegn og fékk lagið “Fjöllin hafa vakað” mikið lof.
Kynnar kvöldsins, þær Rakel Fríða og Svanhildur Karen stóðu sig mjög vel og krydduðu starf sitt bæði með léttri kímni og skemmtilegum búningum milli atriða. Elstu nemendurnir voru með leikritið “Latabæ” og fórst það mjög vel úr hendi. 6. – 8. bekkur sýndi leikritið “Sólarlandaferðina” þar sem fylgst var með fjölskyldu héðan frá Raufarhöfn ferðast út í sólina á Spáni, alveg sprenghlægilegt ☺
Enn fleiri eftirminnileg atriði komu fram og í hléi bauð foreldrafélagið upp á veitingar og seld var ljóðabók grunnskólabarna Raufarhafnar við góðar undirtektir, en allir nemendur skólans eiga 1 – 4 ljóð í bókinni. Kennarar, foreldrar, börn og aðrir gestir lofuðu sýninguna og lýstu ánægðu sinni með vel heppnaða árshátíð. En það var einn nemandinn sem hafði á orði í miðjum árshátíðarundirbúningi að það skipti ekki máli þó að okkur fyndist á stundum við vera orðin of sein með undirbúning því það væri alltaf gaman á árshátíðum, sama á hverju gengi við undirbúninginn. Við þökkum nemendum, foreldrum, öfum og ömmum, kennurum og öðrum sem stóðu að undirbúningi fyrir þessa árshátíð kærlega fyrir samvinnuna. Margar hendur vinna létt verk.
Athugasemdir