Dagurinn í dag var síðasti dagurinn í skólanum. Nú eru aðeins eftir foreldraviðtöl og skólaslit. Og þvílíkur lokadagur! Veðrið lék við okkur þegar nemendur hófu daginn á apahlaupinu svokallaða, en þá hlupu nemendur hringi í þrautabraut og söfnuðu um leið pening fyrir UNICEF. Á meðan á hlaupinu stór var nemendum boðið upp á ávexti og vatn.
Að hlaupi loknu var tekist á í reipitogskeppni. Fyrst byrjaði geysisterkt lið starfsfólks á því að sigra nemendur. En þá steig Dilla upp, sem hingað til hafði verið áhorfandi, og gekk til liðs við nemendaliðið. Og viti menn! Dilla reyndist mikill happafengur fyrir nemendaliðið því með hana innanborðs báru þau öruggan sigur úr bítum. Að lokum var skipt í lið eftir kynjum. Úrslitin í þeirri viðureign skipta hins vegar engu máli.
Því næst var komið að því sem allir Raufarhafnarbúar hafa beðið eftir. Nýr Grænfáni var loksins kominn í hús og var honum flaggað við mikil fagnaðarlæti. Fáninn er ekki eingöngu mikilvægur sem tákn fyrir hið góða starf sem fram fer í skólanum í umhverfismálum, heldur er hann mikilvægur Raufarhafnarbúum til að sjá hvernig vindarnir blása.
Eftir að hafa tínt upp rusl í nærumhverfi skólans héldum við að kartöflugarðinum okkar þar sem við hlúðum að trjánum sem við höfum verið að gróðursetja síðustu ár. Vegnar þeim mörgum ágætlega. Því næst var grafið upp ýmislegt drasl sem við grófum í jörðina í fyrra; plastpoki, bananahýði, kóktappi, sígarettustubbur, áldós og lok af glerkrukku. Allt var þetta enn á sínum stað nema bananahýðið, sem var nánast allt horfið. Þetta kennir okkur að ganga vel um umhverfið okkar því svo hrikalega margt af því sem við notum daglega eyðist ekki í náttúrunni.
Í lok dags héldum við svo upp í skóla þar sem við fengum okkur öll piparkökuís sem hún Gunna í búðinni var svo elskuleg að gefa okkur. Hann var hrikalega góður!
Frábær endir á frábærum degi í lok frábærs skólaárs!
Athugasemdir