Síðasta vetrardag var dásamlega gott veður og framkvæmdir í skólanum svo ákveðið var að taka útivistardag.
Við byrjuðum daginn á morgunmat í skólanum svo lögðum við af stað í fræðslugöngu um Raufarhöfn með Einari fararstjóra.
Allir fengu poka til þess að plokka rusl á leiðinni og stóðu sig vel í því.
Við gengum meðfram sjávarsíðunni niður að bryggju þar sem verið var að landa úr einum bát og fengum við að skoða fiskana og fylgjast með löndun. Þaðan lá svo leiðin að listaverkinu af drekanum þar sem við fengum að sjá drekann spúa eldi. Við skoðuðum líka síldarstúlkuna og gömlu verbúðina og fræddumst um hvernig bryggjurnar voru og hvernig lífið var á síldarárunum.
Svo gengum við Aðalbrautina til baka heim til Kollu og Einars þar sem voru grillaðar pylsur og ís úti í garði.
Eftir að vera búin að næra okkur lékum við okkur í fjörunni þar til skóladegi lauk og grunnskólabörnin voru farin heim, þá röltum við með leikskólabörnin til baka í skólann þar sem við lékum okkur saman á skólalóðinni. Þetta var frábær dagur þar sem allir nutu og skemmtu sér saman í blíðunni. (Arndís J Harðardóttir)
Hér má sjá myndir frá deginum:
Athugasemdir