Dagana 15.-16. maí dvöldu nemendur úr 6. bekk í Borgarhólsskóla á Húsavík ásamt kennurum sínum hjá okkur. Þetta er annað árið í röð sem Borgarhólsskóla sendir nemendur úr 6. bekk til okkar, en markmiðin með heimsókninni er að flétta saman skemmtun og nám, efla og styrkja tengls nágranna, að nemendur kynnist grenndarsamfélagi sínu og að þeir læri að horfa á hlutina frá nýju sjónarhorni. Það voru nemendur í 4.-7. bekk hér á Raufarhöfn sem tóku á móti krökkunum frá Húsavík.
Yfirskrift ferðarinnar að þessu sinni var „Glöggt er gests augað“. Nemendum var skipt í hópa og vann hver hópur nýsköpunarverkefni sem átti að miða að því að koma með hugmyndir sem myndu auka lífsgæði fólksins sem hér býr, fá fleira fólk til að flytja hingað og/eða fá fleiri ferðamenn til að heimsækja okkur. Nemendur voru hvattir til þess að gefa hugmyndafluginu lausan taum. Margar skemmtilegar hugmyndir komu fram, m.a. neðansjávarhótel í höfninni í skjóli af Höfðanum, tönkunum var breytt í gríðarstórt og óhugnalegt draugahús, mjölhúsið varð að innanhús knattspyrnuhöll og blokkinni var breytt í kvikmyndahús.
Meðan á dvölinni stóð fengur krakkarnir einnig fræðslu um Heimskautsgerðið og þá sekki síst dvergana úr Völsupá, auk þess sem þau brölluðu margt annað skemmtilegt. Krakkarnir voru foreldrum sínum og skóla til mikils sóma og við þökkum þeim kærlega fyrir skemmtilega heimsókn.
Örfáar myndir frá heimsókninni má finna hér.
Athugasemdir