Á UNICEF daginn þreyttu nemendur Grunnskólans á Raufarhöfn ýmsar þrautir á leiðinni sem þau hlupu. En gaman var að taka vegalengdina saman og sjá hvert þau hefðu náð að hlaupa samtals í kílómetrum. Frá Raufarhöfn í norðurátt hlupu þau sem nemur að Ljósavatni / Stórutjarnarskóla. Ef við hins vegar skoðum hvert þau hefðu náð austurleiðina þá hlupu þau sem nemur að Jökulsá á brú sem er um 20 kílómetra fyrir utan Egilsstaði, sé farið yfir Hellisheiði eystri.
Með þessu hlaupi náðu krakkarnir að safna um 83 þúsund krónum sem gera um 2.500 á hvern nemanda skólans. Í Afríku og Asíu er þessi upphæð afar mikil og hægt að gera ansi margt fyrir þennan pening. Til að mynda má kaupa fjóra fullbúna skólapakka sem innihalda hver um sig námsgögn og kennslutæki fyrir 80 nemendur og kennara. Það væri hægt að kaupa hreinsitöflur sem duga til að hreinsa um 290 þúsund lítra af vatni og nægir handa um 800 börnum í heilt ár.
Krakkarnir okkar sýndu mikinn áhuga og voru mjög dugleg í þessu verkefni. UNICEF hreyfingin á Íslandi þakkar öllum sem tóku þátt í verkefninu mikið og vel fyrir en fjármununum sem söfnuðust mun vera varið þar sem þörfin er brýnust.
Athugasemdir