Við fengum tvær skemmtilegar heimsóknir í skólann með stuttu millibili. Annars vegar var það Sigrún Magna með vinnusmiðjuna sem kallast "orgelkrakkar" þar sem nemendur áttu að setja saman lítið pípuorgel og fengu svo að prófa að spila á það. Sigrún Magna sagði svo sögu og spilaði fyrir okkur. Hin heimsóknin var frá Svavari Knúti tónlistarmanni og söngvaskáldi sem heiðraði okkur með nærveru sinni, spilaði þekkt lög fyrir okkur á ukulele og gítar auk þess að segja okkur sögur. Hann kvaddi okkur með bóka- og geisladiskagjöf.
Sameiginleg árshátíð Grunnskóla Raufarhafnar og Öxarfjarðarskóla var tekin upp í Hnitbjörgum dagana 28. og 29.apríl sl. Um var að ræða menningarverkefni sem hlaut vinnuheitið "Af hjartans list". Skólarnir í samstarfi við Tónlistarskóla Húsavíkur fengu styrk frá Uppbyggingarsjóði til að vinna að þessu í sameiningu. Elvar Bragason frá Tónasmiðjunni á Húsavík sá um tónlistaræfingar einu sinni í viku á Raufarhöfn og í Lundi og einnig sá hann um upptökur. Afurðin verður tilbúin á allra næstu dögum og það verður spennandi að sjá útkomuna. Í gær, miðvikudaginn 19.maí, fórum við í skólaferðalag til Kópaskers, Húsavíkur og Akureyrar. Það var kominn tími til að fara í ferð þar sem Covid hefur stoppað okkur af ansi lengi. Byrjað var í Skjálftasetrinu á Kópaskeri þar sem jarðskjálftahermirinn var prófaður. Því næst var keyrt til Húsavíkur og borðað á Sölku. Hvalasafnið var skoðað og þar fengum við mjög skemmtilega og fróðlega leiðsögn um safnið og erum við miklu fróðari um hvali eftir þá heimsókn enda var áhuginn mikill og mikið spurt. Síðan litum við aðeins inn í Sjóminjasafnið en þaðan lá leiðin beint til Akureyrar og inn í Kjarnaskóg. Þar kveiktum við upp í útigrilli til að grilla pylsur en meðan kolin hitnuðu léku börnin sér í skemmtilegum útileiktækjum á svæðinu. Dagurinn endaði á því að fara í bíó á Akureyri. Nemendur voru til fyrirmyndar og ferðin í alla staði vel heppnuð! Nú styttist í sumarfrí og ferðir í Lund eru búnar í bili.
Hér fyrir neðan má sjá myndir frá þessum viðburðum:
Lokaverkefnið í smíðum í Lundi:
Brasað í hand-og myndmennt. Búnar til litlar fígúrur
Athugasemdir