19. nóvember 2007 - Lestrar 283 - Athugasemdir ( )
Nemendur úr 7. – 10 bekk fóru til Húsavíkur síðasta föstudag, 16. nóvember, og tóku þátt í spurningakeppni grunnskólanna í Þingeyjarsýslum. Við vorum með ungt og efnilegt lið, en það skipaði: Gréta I. Sigtryggsdóttir og Hrannar Þór Þórsson úr 8. bekk og Karítas Ríkharðsdóttir úr 9. bekk.
Gréta, Karítas og Hrannar. Keppnislið Grunnskólans á Raufarhöfn.
Lagt var af stað um kl.10:30 á þremur bílum, en Þór Friðriksson og Brynja Reynisdóttir voru bílstjórar ásamt Birnu Björnsdóttur kennara. Þegar til Húsavíkur var komið hittist hópurinn í sjoppu og nærði sig fyrir „átökin“ sem í vændum voru. Því næst lá leiðin í Framhaldsskólann og dróst okkar lið á móti B liði Borgarhólsskóla. Keppnin var jöfn og spennandi og hélt okkar fólk forystunni framan af en höfðu í minni pokann á lokasprettinum og komust því ekki í úrslit. Það var mat okkar að krakkarnir hefðu staðið sig afar vel og verið skólanum sínum til mikils sóma.
Til úrslita kepptu nágrannar okkar úr Öxarfjarðarskóla og A lið Borgarhólsskóla sem sigraði.
Framhaldsskólinn bauð síðan öllum keppendum og stuðningsmönnum þeirra til pizzuveislu eftir keppnina og síðan fóru allir á leiksýningu nemenda Borgarhólsskóla. Þau voru að hefja sýningar á leikritinu „Biblía unga fólksins“, eftir Kristjönu Maríu Kristjánsdóttur, sem einnig leikstýrði verkinu.
Ferðin tókst í heildina vel og viljum við koma sérstöku þakklæti til þeirra Brynju og Þórs sem gáfu sér tíma til að koma með okkur og lögðu til bíla. Það er ánægjulegt hvað foreldrar eru jákvæðir að hlaupa undir bagga með okkur þegar við bregðum okkur af bæ. Framlag þeirra er ómetanlegt og styrkir um leið böndin á milli skóla og heimila.
Birna Björnsdóttir
umsjónarkennari 10. bekkjar.
Athugasemdir