Fimmtudaginn 3. maí komu elstu nemendur leikskólans auk nemenda í 1.-4. bekk í Öxarfjarðarskóla í heimsókn til okkar í einn skóladag. Mánuði áður hafði einmitt sami aldur hjá okkur farið í heimsókn til þeirra. Voru þetta afskaplega skemmtilegir dagar þar sem mörg vinatengsl mynduðust. Er það von okkar að þessar mánaðarlegu heimsóknir á milli skólanna munu halda áfram á næsta skólaári. Myndir frá þessum skemmtilega degi má nálgast hér.
Föstudaginn 4. maí héldu Þóra heimilisfræðikennari og nemendur áfram að gera föstudagana hrikalega skemmtilega með því að segja okkur frá einu landi og kynna okkur fyrir matarmenningu þess. Þennan dag var einmitt komið að fjórðu og síðustu kynningu vetrarins. Áður hafa Þóra og krakkarnir boðið okkur upp á mexíkóskt, kínverskt og ítalskt þema og nú var komið að tælensku þema. Eftir að krakkarnir kynntu land og þjóð var smakkað á tælenskum mat sem þau gerðu. Þóra og krakkarnir fá stórt hrós fyrir að brjóta upp föstudagana okkar í vetur. Takk fyrir! Fleiri myndir frá þessum góða degi má nálgast hér.
Nemendur í 4.-7. bekk hjá Olgu hafa verið að læra um Norðurlöndin í samfélagsfræði á þessari önn. Börnin eru að sjálfsögðu orðin margs fróð og hafa verið dugleg við að vinna verkefni. Þegar kom að því að teikna upp kort af Norðurlöndunum kom sú hugmynd upp að gera það beint á vegginn, enda miklu skemmtilegra heldur en að gera það á blað sem sífellt er að detta niður og endar svo í tunnunni í lok árs. Þetta tókst frábærlega hjá krökkunum og nú hafa þau skilið eftir sig minnisvarða í skólanum til eilífðar - eða allavega þar til verður málað næst. Myndir af þessu skemmtilega verkefni má sjá hér.
Athugasemdir