Við byrjuðum á mánudaginn var með því að horfa á hluta af myndinni "Benjamín dúfa" sem fjallar um vináttu fjögurra drengja sem stofna með sér fóstbræðralag en það koma brestir í vináttuna, ævintýrið breytir um svip og kaldur raunveruleikinn ryðst inn í líf félaganna. Við hugleiddum í jóga, ræddum um mikilvægi svefns þar sem nemendur skráðu hjá sér svefntíma, föndruðum svolítið, fórum í leiki, æfðum lög fyrir árshátíðina og enduðum daginn á ratleik sem átti að gefa eitt lykilorð á dag út vikuna. Markmiðið með ratleiknum var samstarf og umburðarlyndi. Farið var eftir vísbendingum inni í skóla og utan hans og m.a. var farið heim til Ragga og honum sagðir brandarar í skiptum fyrir umslag sem innihélt stafi sem átti að raða saman í lykilorð. Á miðvikudeginum var samskonar uppi á teningnum en síðasta vísbending þess dags var á þá leið að fara heim til Guðmundar og Marenar og syngja lag í skiptum fyrir umslag með lykilorði. Við fengum frábærar móttökur á þessum stöðum og nemendur fengu páskaegg fyrir sönginn. Þar sem vikan var heldur stutt í annan endann vegna skólalokana náðum við einungis tveimur þemadögum og lykilorðin voru "góður" og "betri". Við ljúkum þessu eftir páska og vonandi sjáum við fram úr þessari skæðu veiru hér innanlands þannig að lífið geti farið í eðlilegt horf á ný.
Við óskum ykkur öllum gleðilegra páska og vonum að þið njótið samverunnar í faðmi fjölskyldunnar heima við.
Hér eru myndir frá þemadögum og þriðjudögum í Lundi
Athugasemdir