26. mars 2007 - Lestrar 259 - Athugasemdir ( )
Syngjandi skóli átti leið hér um Raufarhöfn á dögunum við góðar undirtektir. Guðni Franzson mætti til leiks með klarinett, ástralskt frumbyggja hljóðfæri (Didgeridoo) og fleiri skemmtileg hljóðfæri sem einhver höfðu víst skolað á land og hann tekið til handargagns á gönguferð sinni um íslenska fjöru einn góðviðrisdag. Þemað var hafið og ferðuðumst við með Guðna bak við ystu sjónarrönd þar sem komið var við og heilsað upp á fólk af ólíkum þjóðernum sem spilaði fyrir okkur nokkra vel valda tóna. Þessi tilbrigði Guðna við að bjóða okkur með í heimsreisu og gefa okkur tóndæmi ólíkra þjóða tókst einstaklega vel upp og fóru allir sælir og glaðir heim eftir upplifunina. Nemendur skólans höfðu undirbúið sig fyrir þessa heimsókn, farið í fjöruferð og fundið sér efnivið til hljóðfæragerðar. Öll mættu þau til leiks með heimagert hljóðfæri og spiluðu í lokin undir með Guðna. Við viljum þakka honum sérstaklega vel fyrir heimsóknina sem og öllum þeim sem standa að þessu mikilvæga og góða framtaki sem samtökin Tónlist fyrir alla er.
Athugasemdir