Riff stuttmyndahátíð fyrir leik-og grunnskólaaldur
Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík, RIFF, í samstarfi við List fyrir alla, býður öllum leik- og grunnskólanemum ókeypis barnadagskrá sem samanstendur af evrópskum stuttmyndum.
RIFF bauð upp á stuttmyndaflokka fyrir börn á mismunandi aldri, allt frá 4 til 15 ára og nýttum við okkur það í liðinni viku fyrir leik- og grunnskóla. Um var að ræða 15-20 mínútna langar myndir og umræður um þær spunnust í kjölfarið.
Póstkort frá Sinfóníuhljómsveitinni
Síðustu vikur hefur Sinfóníuhljómsveit Íslands sent leik- og grunnskólum fjögur póstkort með hugljúfri tónlistarkveðju þar sem hljómsveitin leikur uppáhaldslög margra barna sem komið hafa á tónleika hjá sveitinni. Þar sem þeir geta ekki boðið tónleikagestum í hús langaði þá að viðhalda fallegu vinasambandi hljómsveitarinnar og þeirra fjölmörgu sem hlýtt hafa á skólatónleika sveitarinnar í Hörpu, á landsbyggðinni eða í streymi og senda hljómandi póstkort. Viðmiðunaraldur er 1.-4. bekkur grunnskóla og elsti bekkur leikskóla. Við höfum nú hlustað á póstkortin og höfum haft gaman af.
Bebras keppnin
Bebras var upphaflega stofnað af Prófessor Valentinu Dagiene hjá Háskólanum í Vilnius, en Bebras (e. Beaver) er heitið á dýrinu Bifur á litháísku. Hún fékk hugmyndina þegar hún var að ferðast um Finnland árið 2003 og hugmyndinni er ætlað að vekja áhuga nemenda á því að kynnast upplýsingatækni. Hún ákvað að nýta bifur sem ímynd áskoruninnar vegna þess dugnaðar og fullkomnunaráráttu sem þeir virðast hafa. Eitt af markmiðum Valentinu var að gera Bebras að alþjóðlegu átaki í fræðslu um upplýsingatækni í skólum.
Við í Grunnskóla Raufarhafnar ákváðum að skrá okkur í þetta verkefni og allir nemendur tóku þátt í liðinni viku. Hægt var að velja þyngdarflokka og eftir einhverja daga fáum við lausnirnar og þar með að sjá hvernig okkur gekk.
Gönguferð í góða veðrinu
Þar sem okkur gefst hvorki kostur á að nýta íþróttasalinn né sundlaugina þessa dagana, förum við út í göngutúr og skoðum okkur um. Veðrið bauð upp á útiveru og er fjaran alltaf áhugaverður viðkomustaður þar sem ætíð má finna eitthvað sniðugt og áhugavert. Elva Björk tók þessar skemmtilegu myndir
Athugasemdir